Myndverk barna og kórsöngur barna tala saman á opnun sýningarinnar Tónatal í Menningarhúsinu Hofi á sumardaginn fyrsta. Verkefnið er samstarf milli hópa barna sem skapa myndverk annars vegar og barna sem syngja í barnakór hins vegar.
Við opnun sýningarinnar syngur kórinn 4-5 lög undir stjórn Sigrúnar Mögnu Þórsteinsdóttur, kórstjóra og organista, og á veggjum í Hamragili verða um 30 myndverk eftir börn í 4.-7. bekk Glerárskóla, unnin undir áhrifum tónlistarinnar þar sem þema laganna er vorkoma og sumar.
Verkefnastjórar eru þær Elsa María Guðmundsdóttir sjónlistakennari við Glerárskóla á Akureyri og Sigrún Magna Þórsteinsdóttir, kórstjóri og organisti. Samstarfsaðili verkefnisins er Menningarhúsið Hof.
Sýningin Tónatal stendur til 25. apríl. Enginn aðgangseyrir
Verkefnið er styrkt af Barnamenningarsjóði Akureyrarbæjar.