Býr næsti Mozart hjá þér, næsta Taylor Swift eða næsti óuppgötvaði snillingur?
Dreymir þitt barn um að gera sína eigin tónlist?
TÓNLISTARSMIÐJA Í HOFI
fyrir börn í 5.-10. Bekk í grunnskólum á Norðurlandi eystra sunnudaginn 28. janúar kl. 13-16
Tónlistarsmiðjan er fyrir þá sem vilja kynnast því
- hvernig hægt er að semja tónlist
- að greina form laga
- að semja lagbút í hóp
- fá hugmyndir að því að semja sitt eigið lag
Leiðbeinendur eru tónlistarfólkið Greta Salóme og Júli Heiðar
Athugið; Takmarkaður fjöldi þátttakenda! Ekkert þátttökugjald!
Skráning HÉR
Allar nánari upplýsingar veitir Kristín Sóley viðburðastjóri: kristinsoley@mak.is
Um tónlistarfólkið sem stýrir smiðjunni:
Greta Salóme Stefánsdóttir er söngkona og fiðluleikari, tónskáld og textahöfundur. Hún er konsertmeistari Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands. Greta er tónlistarstjóri UPPTAKTSINS á Akureyri og hefur verið síðan 2021.
Greta nýtir klassískan bakgrunn sinn til að flytja ýmis konar tónlist, bæði sem einleikari og sem hluti af hljómsveitum eða sönghópum. Hún hefur í tvígang verið fulltrúi Íslands í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva, í annað skipti með sitt eigið lag Mundu eftir mér.
Greta hefur unnið hjá Disney samsteypunni og komið fram á tónleikum út um allan heim.
Júlí Heiðar er fjölhæfur listamaður. Hann leikur á trommur, gítar, píanó, saxófón, klarinett og ukulele auk þess sem hann syngur og er menntaður leikari. Júlí hefur starfað sem tónlistarmaður til fjölda ára. Hann hefur m.a. tekið þátt og sigrað í söngkeppni framhaldsskólanna og í tvígang hefur hann átt lag í úrslitakepnni Söngvakeppni Sjónvarpsins. Þau lög hafa ásamt fleiri lögum hans verið gefin út á smáskífum og safnplötum. Þá hefur hann leikið í hljómsveitum frá unglingsaldri og komið fram á fjölda tónleika en síðast á Bylgjusviði Menningarnætur.
Hann hefur átt lög sem hafa setið ofarlega á vinsældarlistum útvarpsstöðva landsins sem og á Spotify. Hann samdi lögin Aldrei eitt, Ástarljóð og Í stormi sem Dagur Sigurðsson söng. Fyrstu tvö náðu fyrsta sæti Bylgjulistans árið 2018/ 2019 og voru topp 10 mest spiluðu lög rásarinn þau ár. Júlí samdi og söng fimmta mest spilaða lagið á Bylgjunni árið 2023.
Stærstu lögin hans Júlí síðustu tvö ár voru án efa lagið Ástin heldur vöku og Ég er sem hann söng með Kristmundi Axel. Júlí er bæði höfundur laganna sem og textanna.
Tónlist Júlís Heiðars síðustu tvö árin hafa einkennst af fallegum melódíum og einlægum textum en Júlí hefur lagt mikla áherslu á íslenskuna í sinni textagerð.
Það er Menningarfélag Akureyrar sem stendur fyrir viðburðinum sem er styrktur af Sóknaráætlun SSNE